Kvenréttindafélag Íslands stofnað.

hallveigarstadir27.janúar 1907 var Kvenréttindafélag Íslands stofnað á Þingholtsstræti 18, heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Bríet átti frumkvæði að stofnun þess. Hún var fyrsti formaður félagsins og átti mestan þátt í að semja lög þess. Aðdragandi stofnunar félagsins var sá að eftir ferð Bríetar um Norðurlönd sumarið 1904 hóf hún bréfaskriftir við Carrie Chapman Catt (1859-1947) stofnanda  International Woman Suffrage Alliance (IWSA) (ísl. Alþjóðakosningaréttarsamtök kvenna). Árið 1906 þáði Bríet boð um að mæta á þing IWSA í Kaupmannahöfn og ákvað í kjölfarið að stofna Kvenréttindafélag Íslands.

Í 2. gr. fyrstu laga félagsins segir að tilgangur félagsins sé:

að starfa að því að íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir

Stofnendur félagsins voru eftirfarandi:

 • Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940) Formaður 1907-1927
 • Sigríður Hjaltadóttir Jenson (1860-1950)
 • Ingibjörg Þorláksson (1878-1970)
 • Kristín Vídalín Jacobson (1864-1943)
 • Guðrún Björnsdóttir (1853-1936)
 • Guðrún Pétursdóttir (1878-1963)
 • Ingibjörg Guðbrandsdóttir (1878-1929)
 • Elín Matthíasdóttir (1883-1918)
 • Sigríður Björnsdóttir (1879-1942)
 • Jórunn Guðmundsdóttir  (1856-1916)
 • Guðrún Daníelsdóttir (1870-1945)
 • Margrét Stefánsdóttir (1873-1940)
 • Þórunn Pálsdóttir (1877-1966)
 • Laufey Vilhjálmsdóttir (1879-1960)
 • Guðrún Aðalsteinsdóttir (1885-1959)

Félagið er enn starfandi og eru ein elstu félagasamtök Íslands. Félagið er til húsa í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum við Túngötu 14.

Ítarefni: