Valdimar Ásmundsson

Valdimar Ásmundson (1852–1902) var ritstjóri og stofnandi Fjallkonunar. Hann giftist Bríeti Bjarnhéðinsdóttur árið 1888.

valdimar ásmundsson

Hann studdi kvenréttindi og birti margar greinar í Fjallkonunni um þau mál. Árið 1885 skrifaði hann til að mynda greinina „Kvenfrelsi“ þar sem segir meðal annars:

„…hefir alþingi með lögum um kosningarétt kvenna, dags. 12. maí 1882, þar sem sjálfstæðum konum er veittr kosningaréttr í sveitamálum og kyrkjumálum, orðið á undan öllum nágrannaþjóðum vorum, og benda nú einkum Norðmenn á dæmi Íslendinga í þessu atriði og hvetja til að breyta eftir því. Vér ættum því síðr að láta hér við staðar nema“.

Ítarefni:

  • Matthías Viðar Sæmundsson, Héðinn, Bríet, Valdimar og Laufey: Fjölskylda og samtíð Héðins Valdimarssonar. (Reykjavík: JPV 2004)
  • Wikipedia

Carrie Chapman Catt

Carrie Chapman CattCarrie Chapman Catt (1859–1947) var bandarísk kvenréttindakona. Hún stofnaði International Woman Suffrage Alliance (IWSA) (ísl. Alþjóðakosningaréttarsamtök kvenna) í Washington árið 1904. Árið 1906 bauð hún Bríeti Bjarnhéðinsdóttur að koma á þing samtakanna í Kaupmannahöfn. Á þinginu hélt Bríet erindi um réttindi og stöðu kvenna á Íslandi. Í kjölfarið stofnaði Bríet Kvenréttindafélag Íslands.

Lýsing Bríetar á Catt í Kvennablaðinu 27. nóvember 1906:

„Hún skýrir málið svo ljóslega og rökstyður svo að ekki verður í móti mælt. Öll framkoma hennar er svo prúð og kvenleg, að hún vinnur málinu, ef til vill, eins mikið gagn með henni og ræðum sínum. Hún talar hátt og snjalt og alvarlega, en hefir þó jafnan ýmsa fyndni á reiðum höndum, sem gerir ræðuna léttari og skemtilegri. Sem fundarstjóri er hún svo óhlutdræg, að sagt var í sumar, að hún væri eins og réttlætisgyðjan, nema að því eina leyti, að hún væri ekki blind.“

Ítarefni:

Skúli Thoroddsen

Skúli Thoroddsen (1859–1916) var alþingismaður, ritstjóri og blaðaútgefandi.

Mynd af alþingi.is
Mynd af alþingi.is

Hann var ötull baráttumaður fyrir réttindum kvenna. Bæði sem ritstjóri Þjóðviljans og sem alþingismaður.

Skúli lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1879 og lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1884.

Hann starfaði sem sýslumaður, málflutningsmaður og bæjarfógeti um árabil.

Hann var ritstjóri Þjóðviljans frá árinu 1886. Í áttundu grein stefnuskrár blaðsins segir:

„Rétt finnst oss, að karlar og konur séu jafnt sett að lögum“

og í ritstjórnartíð hans birtust í blaðinu margar greinar um kvenréttindamál.

Árið 1884 giftist hann skáldinu og kvenréttindakonunni Theodóru Thoroddsen.

Meðal þeirra frumvarpa sem hann lagði fram á alþingi voru mál um fjárráð giftra kvenna, kjörgengi kvenna sem höfðu þá þegar fengið kosningarétt til sveitastjórna og rétt kvenna til menntunar og embætta.

Ítarefni:

Páll Briem

Páll Briem (1856–1904) sýslumaður, amtmaður, alþingismaður og bankastjóri.

Hann var fylgismaður kvenréttinda og hélt fyrirlestur 1885 sem hét: Um frelsi og menntun kvenna: sögulegur fyrirlestur.

Þar segir meðal annars:

Páll Briem. Mynd af althingi.is
Páll Briem. Mynd af althingi.is

Þegar jeg tala um baráttuna fyrir frelsi kvenna, þá á jeg eigi við baráttu til þes að losa kvennfólk undan kúgun og þrældómi- mjer virðist að slíkt eigi sjer hvergi stað í menntuðum löndum – heldur tala jeg um baráttuna fyrir því, að kvennmenn fái rjettindi, fái vald. …Nátengt frelsi kvenna er menntun þeirra, því að það, sem kvennfrelsismenn æskja einna mest, er, að kvennmenn fái rjett til að geta náð menntun jafnt við karlmenn, og þá enn fremur fengið ýmsar stöður sem jafn menntaðir karlmenn geta fengið…

Ítarefni:

Ólafur Ólafsson

ólafur ólafsson
Ljósmynd: Alþingi.is

Ólafur Ólafsson (1855–1937) alþingismaður, prestur og kennari. Hann barðist ötullega fyrir réttindum kvenna. Veturinn 1891 flutti hann fyrirlesturinn Olnbogabarnið. Um frelsi, menntun og rjettindi kvenna.

Þar segir meðal annars:

Þegar lög mannfjelagsins fara að skipta með þeim, þá skamta þau karlkyninu rjettindin, kvenkyninu skyldurnar, karlkyninu frelsið, kvenkyninu þrældóminn, karlkyninu menntunina og þekkinguna, kvenkyninu fáfræðina og vanþekkinguna: og allt af er sama viðkvæði, allt af sama ástæðan: Af því að þú er kvenmaður, en hann karlmaður.

… það er því líkast sem sumum karlmönnum finnist það [kvenfólk] aldrei nógu auðmjúkt, nógu niðurlútt, nógu undirgefið undir harðstjórnarvald karlmannanna

Ólafur lagði fram þrjú frumvörp, með Skúla Thoroddsen þingmanni, sem fjölluðu um réttindi kvenna. Þau voru um fjárráð giftra kvenna, kjörgengi kvenna sem höfðu þá þegar fengið kosningarétt til sveitarstjórna og rétt kvenna til menntunar og embætta.

Ítarefni:

Ólafía Jóhannsdóttir

ólafíaÓlafía Jóhannsdóttir (1863–1924) einn af stofnendum Hins íslenska kvenfélags 1894 og Hvítabandsins 1895. Hún barðist fyrir stofnun Háskóla Íslands. Hún var fulltrúi kvenna á Þingvallafundinum 1895.

Þar var henni ætlað að ræða fjögur mál: kvenréttindamálið, háskólamálið, stjórnarskrármálið og bindindismálið.

Ólafía ritstýrði tímaritinu Framsókn á árunum 1899–1901 (ásamt Jarþrúði Ólafsdóttur) en einnig barnablaðinu Æskunni árið 1899 og Ársriti hins íslenska kvenfélags árin 1895 til 1897 og 1899.

Ólafía var jafnframt fyrsta íslenska konan til að gefa út sjálfsævisögu árið 1925.

Ítarefni:

  • Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Ólafía Jóhannsdóttir: ævisaga Ólafíu Jóhannsdóttir. (Reykjavík: JPV útgáfa 2006)
  • Ólafía Jóhannsdóttir, Frá myrkri til ljóss: æfisaga. (Akureyri: Athur Gook 1925)
  • Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, „Fyrstu íslensku súffragetturnar“, Alþýðublaðið 11.mars 1997
  • Wikipedia

Magnús Eiríksson

Magnús Eiríksson

Magnús Eiríksson (1808–1881) guðfræðingur sem varð einn af fyrstu karlmönnum á Norðurlöndum til að gerast talsmaður kvenna. Hann skrifaði bókina Breve til Clara Raphael undir nafninu Theodor Immanuel þar sem hann segir að konur standi körlum fyllilega jafnfætis þegar kemur að vitsmunum, tilfinningum og vilja. Þegar konur fái sömu kennslu og þjálfun og karlmenn eigi þær jafn gott með að valda hinum ýmsu embættum á sviði guðfræðinnar, lögfræðinnar og læknisfræðinnar.

Ítarefni:

Bréfasafn Magnúsar er varðveitt á handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafn: Lbs. 302-305 fol  Magnús Eiríksson cand. theol. bréfasafn

Hannes Hafstein

hanneshafsteinHannes Hafstein (1861–1922) fyrsti ráðherra Íslands, skáld og sýslumaður.

Meðal þess sem hann gerði fyrir kvenréttindabaráttu á Íslandi var að opna Lærða skólann (sem nefndist eftir það Menntaskólinn) fyrir stúlkum árið 1904 og árið 1907 lagði hann fram frumvarp á alþingi um rétt kvenna til allrar menntunar og embætta.

Ítarefni:

Einfríður María Guðjónsdóttir

EInfríður María Guðjónsdóttir. Mynd úr Morgunblaðinu 01.07.1971
Ljósmynd: Morgunblaðið 01. júlí 1971

Einfríður María Guðjónsdóttir (1888-1971) var fyrsta íslenska konan sem starfaði við bókband árið 1904. Hún hóf störf í Ísafoldarprentsmiðju 1904 og hún öðlaðist síðar sveinsréttindi. Einfríður var gjaldkeri Bókbandssveinafélags Reykjavíkur 1918-1919. Hún var gerð að heiðursfélaga Bókbindarafélags Íslands árið 1958.

Ítarefni:

Ágústa Svendsen

Ágústa Svendsen (1835–1924) var fyrsta íslenska konan til að hefja verslunarrekstur en 1887 opnaði hún hannyrðaverslunina Refil í Reykjavík.

Ítarefni:

  • Auður Sveinsdóttir, „Verzlun Augustu Svendsen “, Hugur og hönd (1971), 26-29.
  • Björg Einarsdóttir, Úr ævi og starfi íslenskra kvenna, I. bindi, bls. 22-39.
  • Grein um Bréfasafn Águstu Svendsen sem birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2001
  • Sigríður Th. Erlendsdóttir, „Reykvískar konur í atvinnulífinu 1880-1914“, Reykjavík miðstöð þjóðlífi, Ritstjóri Kristín Ástgeirsdóttir (Reykjavík: Sögufélag 1977), bls. 41-61
  • Vilhjálmur Þ. Gíslason, „Upphaf sérverslunar í Reykjavík “, Reykjavík í 1100 ár,  Helgi Þorláksson sá um útgáfuna (Reykjavík: Sögufélag 1974), bls. 190-203

Bréfasafn Ágústu er varðveitt á Kvennasögusafni.